„Ég er nú ýmsu vanur þegar kemur að veðráttu enda frá Skotlandi en auðvitað vonast maður til að veðrið verði í góðu lagi. Spáin er fín og ég er orðinn mjög spenntur fyrir þessu,“ segir skoski utanvegahlauparinn Andrew Douglas léttur í lund, í aðdraganda Laugavegshlaupsins þetta árið.

Andrew er að keppa í sínu fyrsta ofurhlaupi (e. ultra marathon) um helgina. Hann hefur keppt fyrir hönd Bretlands í fjallahlaupum á sex Evrópumótum og í sex heimsmeistarakeppnum.

Þar að auki hefur Andrew, sem keppir ýmist fyrir Skotland eða sameiginlegt lið Bretlands, borið sigur úr býtum í meistaramóti einstaklinga í Bretlandi í utanvegahlaupum fimm sinnum á síðustu sjö árum og vann heimsmeistaramótið í fjallahlaupum (e. World Mountain Running Association World Cup) árið 2019.

„Ég er mjög spenntur að takast á við þetta. Þetta er ólíkt nokkru öðru hlaupi sem ég hef hlaupið, en eitthvað sem ég er mjög spenntur að takast á við. Þetta er fyrsta ofurhlaupið mitt og það er gott að gera það á jafn eftirminnilegum stað og Íslandi,“ segir Andrew, sem hefur heyrt góðar sögur af leiðinni.

„Yfirmaður skoska utanvegahlaupasambandsins, Angela Mudge, hafði orð á því að þetta væri afskaplega falleg braut að hlaupa. Auðvitað er það ákveðinn þröskuldur að fara í lengra hlaup en ég hef áður verið að hlaupa og ég verð að gæta þess að spara orku og brenna ekki of snemma út,“ sagði Andrew, um að hlaupa tæplega þrettán kílómetrum lengra en vanalega og í hlaupi sem hækkar um tíma um 500 metra og lækkar um 900 metra.

Alls eru 607 hlauparar skráðir í hið gríðarlega krefjandi Laugavegshlaup í ár, 227 konur og 380 karlar. Fimmtán prósent þátttakenda, eða 90, eru erlendir, flestir frá Bandaríkjunum.

Um tíma var um 50% þátttakenda erlendir hlauparar, að sögn Silju Úlfarsdóttur, upplýsinga- og kynningarfulltrúa ÍBR, sem sér um hlaupið, en kórónaveiran setur strik í reikninginn. Keppendur eru af 21 þjóðerni. Silja segir ávallt mikinn áhuga erlendis frá.

Andrew átti erfitt með að tilgreina hvað þarf til að komast í fremstu röð í utanvegahlaupi, spurður um það hvað geri útslagið í fjallahlaupum.

„Allir sem njóta þess að hlaupa ættu ekki að finna fyrir miklum mun að hlaupa utanvega- eða fjallahlaup. Þetta snýst að mörgu leyti um að vera vel undirbúinn og að stýra álaginu og hraðanum vel. Það er ákveðin tækni í því að geta gengið hratt þegar aðstæðurnar eru þannig að það er orðið óskilvirkt að hlaupa vegna halla. Það er margt sem þarf að huga að.“

Undanfarin ár hefur Þorbergur Ingi Jónsson verið í sérflokki hjá Íslendingum í hlaupinu í karlaflokki og á fjóra bestu tímana, en hann fær nú verðugan keppinaut í Andrew.

Í kvennaflokki tókst Rannveigu Oddsdóttur að bæta brautarmetið í fyrra, en Elísabet Margeirsdóttir, sem stefnir á heimsmeistaramótið í utanvegahlaupi síðar á þessu ári, mun meðal annars veita henni samkeppni.