Vanda var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og segir niðurstöður skýrslunnar ekki gefa tilefni til þess að ráðast í mannabreytingar hjá KSÍ. Sjálf segist Vanda ekki orðið vitni að þöggunarmenningu innan sambandsins og að með beiðni um skýrslugerðina hefði sambandið viljað setja öll mál upp á borðið.

Vanda segist ekki geta tjáð sig um það hvort þolendur telji skýrsluna gera lítið úr upplifun sinni eða reynslu. „Það er ekki mitt að dæma um það. Það sem við getum gert er að skoða skýrsluna og séð hvað í henni stendur varðandi það sem við þurfum að bæta. Við vitum ýmislegt um það sem við þurfum að bæta,“ sagði Vanda. Þannig verði hægt að gera það sem rétt sé fyrir þolendur."

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, ein þeirra sem hefur gagnrýnt viðbrögð KSÍ vegna tilkynninga um kynferðisbrot, lét þau orð falla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að skýrslan væri ,,opinber gaslýsing á þolendur." Vanda var spurð að því í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun hvort hún væri ósammála þeirri fullyrðingu.

,,Í fyrsta lagi þá bað KSÍ um að þessi skýrsla yrði gerð, ÍSÍ varð við þeirri beiðni og fékk þrjá óháða aðila til þess að gera skýrsluna, vandað fólk. Ég hef ekkert annað í höndunum en að þau hafi unnið sitt starf af einlægni og góðum hug. Mér finnst mikilvægt að þessi orð mín séu ekki túlkuð gegn þolendum. Mér finnst mjög mikilvægt að skýrslan verði ekki notuð til að ráðast gegn þolendum eða til þess að efast um orð þeirra af því að nóg er á þolendur lagt. Mér finnst leitt að þau upplifi þetta svona en sýni því alveg skilning," sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Úttektarnefnd ÍSÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu að vitneskja hafi verið innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem hafa starfað fyrir sambandið hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010-2021.

„Nefndin telur ljóst að KSÍ hafði brugðist við í þremur þessara mála, annaðhvort með því að leikmaður var sendur heim úr landsliðsverkefni eða því að viðkomandi starfaði ekki aftur fyrir KSÍ,“ segir í umfjöllun nefndarinnar um málið.