Ísland varð af mikilvægum stigum þegar Albanía vann 4-2 sigur á Íslandi í H-riðli undankeppni Evrópumótsins í kvöld þar sem Ísland var skrefinu á eftir frá fyrstu mínútu.

Albanir komust þrívegis yfir gegn Strákunum okkar sem voru slappir framan af leiks en bitu frá sér í seinni hálfleik þegar þeim tókst tvívegis að jafna.

Mistök í varnarleiknum urðu Íslandi að falli þegar líða tók á seinni hálfleikinn og var ekki hægt að segja annað en að sigur Albana hafi verið verðskuldaður.

Erik Hamrén gerði tvær breytingar á liði Íslands frá sigrinum á Moldóvu, Rúnar Már Sigurjónsson og Emil Hallfreðsson komu inn og fengu Kolbeinn Sigþórsson og Arnór Ingvi Traustason að víkja.

Það var lítill taktur í íslenska liðinu fyrir utan fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik. Liðið náði engum tökum á leiknum og hélt bolta illa sem gerði það að verkum að Albanir voru mun sterkari og komust verðskuldað yfir með skallamarki á 32. mínútu.

Hálfleiksræða þjálfarateymisins virtist virka vel því strax á annarri mínútu seinni hálfleiks var Gylfi Þór Sigurðsson búinn að jafna metin eftir góðan undirbúning Rúnars Más.

Jöfnunarmarkið virtist ekki slá Albani út af laginu því þeir komust aftur yfir tveimur mínútum síðar eftir að hafa leikið vel á vörn íslenska liðsins.

Kolbeinn náði að jafna metin á ný á 58. mínútu með fyrstu snertingu sinni í leiknum stuttu eftir að hafa komið inn á sem varamaður og við það náði Ísland völdum á leiknum næstu mínútur leiksins.

Þegar líða tók á leikinn tókst Albaníu að ná frumkvæðinu á ný og komst yfir í þriðja sinn í leiknum þegar skot Odise Roshi fór af Kára Árnasyni og í netið.

Fimm mínútum síðar gerði Sokol Cikalleshi út um leikinn með fjórða marki Albaníu og stuttu síðar fór Kári Árnason meiddur af velli þegar Ísland var búið með skiptingar sínar.

Léku Strákarnir okkar því manni færri síðustu mínútur leiksins og náðu ekki að ógna marki Albaníu.