„Það var auðvitað ótrúlega sorglegt og erfið ákvörðun, að þurfa að af lýsa viðburðinum. Við skoðuðum þetta eftir öllum mögulegum leiðum fyrir krakkana en komumst að þessari niðurstöðu. Það er rúmlega tveggja ára vinna að baki við að skipuleggja þetta og töldum við okkur gefa okkur ríflegan tíma þegar mótinu var frestað um eitt ár í mars síðastliðnum en við töldum ekki rökrétt að halda mótið að svo stöddu,“ segir Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, um ákvörðun sambandsins að af lýsa EuroGym, evrópskri fimleikahátíð ungmenna, sem átti að fara fram hér á landi á næsta ári. Von var á um 5.000 þátttakendum á aldursbilinu tólf til átján ára, frá tuttugu mismunandi löndum ásamt þjálfurum og foreldrum, og var á dagskrá að halda rúmlega fjörutíu íþrótta- og fræðsluviðburði á vegum Fimleikasambandsins.

Um er að ræða fimleikahátíð sem er haldin annað hvert ár og fer næst fram í Sviss árið 2022. „Fyrstu viðbrögð okkar í byrjun árs voru að fresta þessu og taka við næsta móti árið 2022, en þá var búið að úthluta mótinu til Sviss og undirrita samninga þess efnis. Þá reyndum við að fresta um ár eftir alla vinnuna sem lá að baki, en ákváðum svo á dögunum að af lýsa þessu. Við erum búin að læra ýmislegt um þennan faraldur og á tímum sem ætlast er til að fólk virði fjarlægðarmörk er erfitt að taka við 5.000 keppendum á viðburð þar sem einkennisorðin eru sameining. Það hefði orðið afar erfitt að tryggja að allir myndu virða sóttvarnir.“

Ljóst er að þetta hefði verið einn stærsti íþróttaviðburður ársins á Íslandi og með því hefði mátt reikna með miklum tekjum inn í íslenskt samfélag.

„Okkar áætlanir sýndu að það hefði mátt gera ráð fyrir að mótið hefði fært íslensku samfélagi eitthvað í kringum tvo milljarða með öllum þátttakendum og aðstandendum þeirra, fyrir utan öll flugin sem við tókum ekki með inn í dæmið. Það er á hreinu að þetta er mikill tekjumissir fyrir okkur og íslenskt samfélag.“ Aðspurð út í hvaða áhrif aflýsingin hefur á fjárhagsstöðu Fimleikasambandsins, segir Sólveig að þetta muni kosta sambandið mikið.

„Okkur sýnist að þetta komi til með að kosta Fimleikasambandið tæplega þrjátíu milljónir. Svo eru auðvitað ótalmargar vinnustundir að baki, en við reynum að vera jákvæð og horfa á það sem við lærðum af því að skipuleggja mót af þessari stærðargráðu.“

Hún vonast til þess að fimleikahátíðin geti farið fram á Íslandi síðar, eftir að hafa lært hvað þarf til að skipuleggja slíkan viðburð.

„Vonandi getum við haldið þessa hátíð seinna því þetta er frábær viðburður fyrir krakkana. Í íþróttum er tölfræðin yfirleitt sú að tvö prósent iðkenda skari fram úr, en íþróttahreyfingin gerir of lítið fyrir hin 98 prósentin. Þau fá ekki að keppa á alþjóðlegum mótum og mörg þeirra hafa ekki áhuga á að taka þátt í keppnum yfir höfuð. Þetta var því á sinn hátt okkar leið til þess og sýna að fimleikar eru fyrir alla, þar sem allir fá að tilheyra á sínum forsendum. Vonandi getum við haldið svona viðburð þegar þennan heimsfaraldur lægir, því sameining er eitt af einkennismerkjum mótsins.“

Fimleikasambandið fékk tæplega 8,5 milljóna styrk frá ÍSÍ í aðgerðapakka stjórnvalda fyrr á þessu ári til að brúa bilið. Að sögn Sólveigar hefur evrópska fimleikasambandið varla burði til að draga Íslendinga að landi.

„Við fengum góðan styrk frá ríkisstjórninni í gegnum ÍSÍ í vor, við áttum nýlega fund með evrópska fimleikasambandinu um stöðuna en þau geta ekki aðstoðað okkur, en við vonumst til þess að geta sótt styrki í aðgerðapakkann sem von er á á næstu dögum frá ríkisstjórninni.“