Það er mikill hiti á Englandi um þessar mundir. Nú um helgina fer fram önnur umferð þessarar leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni. Því má búast við því að vatnspásur verði í mörgum leikjum.

Reglur eru um það hjá enska knattspyrnusambandinu að haldnar séu stuttar vatnspásur í hvorum hálfleik fyrir sig ef hitinn fer yfir 30 gráður. Á hann að gera það víða um helgina. 

Slíkar pásur sáust fyrst í ensku úrvalsdeildinni er hún sneri aftur eftir langt hlé sökum upphafs kórónuveirufaraldursins árið 2020. Þá var hluti deildarinnar leikinn yfir hásumar.

Margir knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni nota pásuna til að stilla saman strengi og gefa leikmönnum ráð. Því má líta á vatnspásurnar í enska boltanum sem eins konar leikhlé, líkt og þekkist í hand- og körfubolta.

Nokkrir áhugaverðir leikir verða á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Sá stærsti er án efa leikur Chelsea og Tottenham á morgun.