Kraftlyftingasamband Íslands var með það til skoðunar að reyna að finna alþjóðlega dómara sem voru búnir að fá kórónaveiruna í von um að geta haldið mót með alþjóðlega vottun í byrjun árs, en búið er hætta við þær áætlanir. Þetta staðfesti Gry Ek Gunnarsson, formaður Kraftlyftingasambandsins í samtali við Fréttablaðið. Það er því stefnt að því að halda innlent mót á Reykjavíkurleikunum, ef þeir fá að fara fram undir lok mánaðarins.

„Við vorum að láta okkur dreyma um það að halda alþjóðlegt mót, til þess þyrftum við að fá dómara að utan, en erum hætt við það. Það er enginn grundvöllur fyrir því þegar verið er að setja hertar reglur í Evrópu og veiran er í sókn að ferðast til Íslands,“ segir Gry Ek.

„Við fundum fyrir miklum áhuga erlendis. Það voru einstaklingar sem voru mjög æstir að koma, tilbúnir að sitja í gegnum sóttkví bara til þess eins að fá að keppa á alþjóðlegu móti. Óþreyjan eftir því að keppa er orðin það mikil innan kraftlyftingahreyfingarinnar.“

Búið er að gefa leyfi fyrir keppnisíþróttum á nýjan leik undir ákveðnum skilyrðum og er því stefnt að því að innanlandsmót í kraftlyftingum verði hluti af Reykjavíkurleikunum í janúar.

„Miðað við upplýsingarnar sem komu út í gær stefnum við að því að halda mót á RIG. Allt okkar fólk er búið að bíða spennt, enda allt of langt liðið frá síðasta móti.“