Þetta verður í fyrsta skipti sem keppnir á vegum Formúlu 1 munu fara fram í ríkjunum tveimur en yfirstjórn Formúlu 1 hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir það að halda keppnir þar sökum bágrar stöðu mannréttinda í ríkjunum tveimur.

Það er hins vegar mat Domenicali að það muni ekkert hjálpa til við stöðuna að loka á þau. Það myndi einungis hafa neikvæð áhrif ,,Það er ekki hægt að bæta stöðu mannréttinda í ríkjunum á einni nóttu. Breytingin er menningarlegs eðlis og slíkt tekur tíma," sagði Stefano Domenicali, framkvæmdarstjóri Formúlu 1 í viðtali við BBC.

,,Við getum hins vegar haft áhrif á það að breyting eigi sér stað fyrr með því að halda stóra viðburði á þessum stöðum. Formúla 1 mun leika stórt hlutverk í þeirri vegferð."

GettyImages

Domenicali segir það skýrt í samningum Formúlu 1 við ríkin tvö að þau verði að virða ákvæði mannréttinda sem Formúla 1 setur fram. Ef þau gangast ekki við þeim ákvæðum verði samningnum rift.

,,Ég trúi því að kastljósið sem við erum að beina á þessi ríki muni stuðla að breytingu til hins betra. Ég trúi því ekki að með því að loka á ríki munum við bæta stöðuna. Það mun bara leiða til verri hluta," sagði Stefano Domenicali, framkvæmdarstjóri Formúlu 1 í viðtali við BBC.

Nýta viðburði sem þessa til að beita blekkingum

Í yfirlýsingu frá mannréttindasamtökunum Amnesty International segir að ríku löndin í Mið-Austurlöndunum hafi löngum nýtt sér stóra íþróttaviðburði til þess að hvítþvo sig og setja upp aðra mynd en raunveruleg staða í löndunum segir til um.

,,Bæði Katar og Sádi-Arabía eru með mjög lélega ferilskrá er kemur að mannréttindum. Allt frá kerfisbundinni mismunun stjórnvalda í Katar gagnvart farandverkamönnum og takmarkana á tjáningarfrelsi til aðgerða stjórnvalda í Sádi-Arabíu gegn mannréttinda aktívistum og morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi," segir í yfirlýsingu frá Amnesty International.

Samtökin segja að með því að nýta sér glamúrinn og sjónarspilið í kringum Formúlu 1, vonist stjórnvöld í ríkjunum tveimur til þess að nánast engin umræða verði um stöðu mannréttinda í kringum keppnirnar.

,,Stjórn Formúlu 1, ökuþórar og liðin í heild sinni ættu að undirbúa sig og tala um stöðu mannréttinda í Katar og Sádi-Arabíu í aðdraganda keppnanna, gera sitt til þess að koma í veg fyrir blekkingar stjórnvalda," segir í yfirlýsingu Amnesty International um komandi keppnir í Formúlu 1.