Guðný Árnadóttir, landsliðskona í knattspyrnu, leikur með Napoli, sem er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í ítölsku efstu deildinni. Guðný samdi við ítalska stórliðið AC Milan til þriggja ára í desember síðastliðnum og var lánuð til Napoli, en þar mun hún spila út yfirstandandi keppnistímabil.

„Það tók smá tíma fyrir mig að venjast því að spila hérna. Þetta er öðruvísi fótbolti en ég er vön að spila. Það eru margi teknískir og hraðir leikmenn í deildinni og svo tók tíma að aðlagast því að það er mikil krafa á að spila boltanum út úr vörninni. Það voru nokkrar feilsendingar í fyrstu leikjunum en nú er þetta allt að koma,“ segir varnarmaðurinn sterki, sem hefur spilað átta deildarleiki síðan hún gekk til liðs við Napoli sem var í fallsæti þegar hún kom.

„Þetta er mjög jöfn og skemmtileg deild og það geta öll liðin unnið alla nánast. Við til dæmis spiluðum hörkuleik við topplið deildarinnar, Juventus, sem ég gat reyndar ekki spilað. Svo töpuðum við 1-0 á móti Sassuolo sem er í þriðja sæti og við hefðum klárlega getað fengið stig út úr þeim leik. Napoli hefur farið upp um þrjár deildir á síðustu þremur árum og það er mikill vilji að halda liðinu í efstu deild. Við fengum hollenskan framherja um leið og ég kom og svo kom Lára Kristín Pedersen eftir jól, þannig að liðið hefur verið styrkt til þess að freista þess að halda sætinu í deildinni,“ segir Guðný um stöðu mála hjá Napoli.

Nýverið var ákveðið að gera ítölsku efstu deildina í knattspyrnu kvenna að atvinnumannadeild eftir tvö tímabil og Guðný segist finna fyrir því að það sé mikill metnaður fyrir því að efla kvennaknattspyrnu í landinu og áhuginn fyrir liðinu í Napólíborg sé mikill.

„Maður er oft stoppaður úti á götu ef ég er merkt Napoli og spurð út í næstu leiki. Það er gríðarlegur knattspyrnuáhugi í borginni og fótbolti er bara eins og trúarbrögð. Það er mikil hjátrú hjá þeim sem koma að liðinu. Ef að úrslitin eru góð þá er reynt að hafa undirbúninginn nákvæmlega eins fyrir næsta leik. Rútínan höfð eins og gist á sömu stöðum og svoleiðis. Það er mjög gaman að upplifa þetta.

Guðný í harðri baráttu um boltann
Mynd/Aðsend

Við erum með lið sem ætti að geta haldið sér í deildinni og það er stefnan. Næstu tveir leikir eru mjög áhugaverðir fyrir mig af ólíkum ástæðum. Við spilum við AC Milan í næsta leik og þá hitti ég forráðamenn liðsins í fyrsta skipti síðan ég skrifaði undir hjá þeim. Í næsta leik þar á eftir spilum við svo mjög mikilvægan leik við San Marino sem er með jafn mörg stig og við núna,“ segir Hornfirðingurinn um framhaldið en Napoli er í sætinu fyrir ofan fallsvæði deildarinnar þar sem liðið hefur betri markatölu en San Marino.

Næsta verkefni Guðnýjar er hins vegar leikur með íslenska kvennalandsliðinu gegn Ítalíu ytra 13. apríl næstkomandi.

„Það er mjög gott að búa í Napólí, en ég hef auðvitað ekki séð jafn mikið af borginni og getað ferðast jafn mikið og ég hefði viljað út af kórónaveirunni. Ég bý hins vegar alveg við ströndina og það er komið sumar hérna þannig að þetta gæti alveg verið verra,“ segir hún um tíma sinn á ítalskri grundu.