Mikið er undir hjá báðum liðum. Liverpool situr í 2. sæti deildarinnar og gæti með sigri komið sér á topp deildarinnar ef Manchester City tekst ekki að vinna Aston Villa.

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, nýtti tækifærið í gær og hrósaði varnarmanni sínum, Virgil van Dijk. Van Dijk meiddist illa í leik Everton og Liverpool á Goodison Park á síðasta tímabili.

,,Endurkoma hans hefur verið frábær og ef það er eitthvað við hann sem er ekki eins og var áður, þá er það aðeins tímaspursmál þangað til það verður komið í réttan farveg."

Hann segir það mögulegt að endurkoma Van Dijk á Goodison Park geti reynst honum erfið. ,,Við erum manneskjur og það er erfitt að gleyma einhverju á borð við þetta. Van Dijk er reynslumikill og hefur tekist á við þær aðstæður sem komu upp á síðasta tímabili," sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á blaðamannafundi í gær.

Þá er leikurinn einnig mikilvægur fyrir Everton og þá sérstaklega fyrir knattspyrnustjóra liðsins Rafa Benítez. Gengi Everton á tímabilinu hefur verið undir væntingum. Liðið situr í 14 .sæti deildarinnar með 15 stig. Benitez er undir mikilli pressu og gætu átt hættu á að missa starf sitt fari úrslitin ekki að batna hjá Everton.

Benitez hefur lent í mótlæti allt frá því að hann tók við stjórnartaumunum. Hann var á sínum tíma knattspyrnustjóri erkifjendanna í Liverpool og það eru ekki allir hrifnir af því að hann hafi tekið við Everton fyrir tímabilið.

Þetta verður í fjórtánda skipti sem Benitez stýrir liði í Liverpool borgarslagnum og hann þarf nauðsynlega á sigri að halda í þetta skipti. Everton hefur tapað sex af síðustu níu leikjum sínum og aðeins unnið einn með markatöluna -10.

Þá bætir það ekki úr skák að liðið er í miklum meiðslavandræðum. Varnarmaðurinn Yerry Mina, miðjumaðurinn Abdoulaye Doucoure og framherjarnir Dominic Calvert-Lewin og Richarlison, eru allir á meiðslalista liðsins.