Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Körfuknattleikssambands Íslands en KR átti leik í kvöld gegn Breiðablik í Subway deild karla.

Þá hefur leik liðsins gegn Val sem fara átti fram þann 10. janúar næstkomandi einnig verið frestað af sömu sökum.

,,KKÍ hefur frestað eftirfarandi leikjum vegna sóttkvíar og einangrunar leikmanna. Leikjunum hefur ekki verið fundinn nýr leiktími, en staðan verður tekin í upphafi næstu viku," segir í tilkynningu á heimasíðu KKÍ.

Auk framtaldra leikja hefur tveimur leikjum verið frestað í 1. deild karla. Leik Hauka og Selfoss sem fara átti fram á morgun hefur verið frestað og þá hefur leik Hattar og Selfoss sem fara átti fram þann 10. janúar næstkomandi, einnig verið frestað.

Þá var einum leik frestað í 1. deild kvenna. KR og Stjarnan áttu að mætast á morgun en óljóst er í augnablikinu hvenær sá leikur fer fram.