Tilkynnt hefur verið hvernig byrjunarlið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu mun líta út í leik liðsins gegn Belgíu í fjórðu umferð í riðlakeppni A-deildar í Þjóðadeildinni í kvöld. Leikur liðanna sem fram fer á Laugardalsvellinum hefst klukkan 18.45.

Sjö leikmenn vantar hjá íslenska liðinu Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru farnir aftur til félagsliða sinna og Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Alfreð Finnbogason og Arnór Sigurðsson eru að glíma við meiðsli.

Sex breytingar eru á byrjunarliði íslenska liðsins frá tapinu gegn Danmörku í síðustu umferð Þjóðadeildarinnar. Rúnar Alex Rúnarsson kemur í markið í stað Hannesar Þórs Halldórssonar. Ari Freyr Skúlason og Birkir Már Sævarsson koma inn sem vængbakverðir í leikkerfinu 5-3-2.

Hólmar Örn Eyjólfsson er hluti af þriggja manna miðvarðarlínu Íslands og Albert Guðmundsson og Jón Daði Böðvarsson eru svo í framlínu liðsins. Arnór Ingvi Traustason sem byrjaði leikina á móti Rúmenum í umspili um laust sæti á EM 2021 og gegn Dönum fær sér sæti á varamannabekk íslenska liðsins sem samanstendur af sjö leikmönnum.

Byrjunarlið íslenska liðsins er þannig skipað:

Markmaður: Rúnar Alex Rúnarsson. Vörn: Ari Freyr Skúlason, Hörður Björgvin Magnússon, Hólmar Örn Eyjólsson, Sverrir Ingi Ingason, Birkir Már Sævarsson. Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason (f), Rúnar Már Sigurjónsson. Sókn: Albert Guðmundsson, Jón Daði Böðvarsson.

Arnar Þór Viðarsson mun stýra íslenska liðinu af hliðarlínunni í þessum leik en hann þekkir belgíska knattspyrnu vel eftir að hafa leikið um árabil þar í landi, annars vegar með Lokeren og hins vegar Cercle Brugge. Seinna átti hann svo eftir að stýra báðum þessum liðum.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfarar íslenska liðsins, sem eru í sóttkví verða hins vegar ekki langt undan þar sem þeir munu horfa á leikinn úr glerbúri sem staðsett er fyrir ofan stúkuna á Laugardalsvellinum.

Byrjunarlið belgíska liðsins má svo sjá hér að neðan en þar vekur helst athygli að Romelu Lukaku sem átti mögulega að hvíla í þessum leik er í byrjunarliði Belga.

Hjá Belgum vantar meðal annars Thibaut Courtois, Kevin De Bruyne, Eden Hazard og Dries Mertens í þennan leik.