Þegar Manchester United tilkynnti kaupin á Alexis Sanchez var blásið í alla samfélagsmiðla-herlúðra sem til voru. Gert var stórkostlegt myndband þar sem Sanchez sat við píanóið í hinni goðsagnakenndu treyju númer sjö og spilaði Glory Glory Man. Utd. Ed Woodward, framkvæmdastjóri félagsins, var stoltur og sagði að myllumerkið #Alexis7 hefði verið það vinsælasta í Twitter-heimi, aldrei hefði neinn ýtt á like-hnappinn oftar á Facebook-síðu félagsins og Instagram-reikningur félagsins hefði verið rauðglóandi. Í raunheimum gekk þó ekkert upp hjá Sanchez þegar 18 mánaða dvöl hans er skoðuð.

Sanchez fékk ótrúleg laun við vistaskiptin til Manchester. Vefsíðan Football Leaks komst yfir 49 blaðsíðna samning hans og birti og meira að segja í rugluðum fótboltaheimi var staldrað við og spurt hvort Manchester United væri orðið eitthvað ruglað. Þó að það væri eitt ríkasta félag heims og í rauninni væri þetta örlítill dropi í þeirra ógnarveltu voru þetta ótrúlegar upphæðir.

Sanchez hafði verið stórkostlegur fyrir Arsenal í mörg ár en fátt réttlætti þessi laun. Hann fékk 391 þúsund pund í vikulaun eða um 71 milljón króna. Íbúðin sem samfélagsmiðlastjarnan Birgitta Líf auglýsti til sölu í maí kostaði einmitt 70,9 milljónir. Árið 2009 var Lottópotturinn eitt sinn 70 milljónir og auglýstu Íslenskar getraunir í fjölmiðlum undir risastórri fyrirsögn að potturinn væri ekki stór heldur risastór. Sanchez fékk þennan risapott á hverjum einasta laugardegi.

Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Duncan Alexander tísti í vikunni að hver einasta snerting Sanchez í búningi Manchester United hefði kostað félagið 29 þúsund pund eða rúmar fimm milljónir króna. Land Rover Discovery 4se frá 2012 er til sölu á Heimsbílum á sléttar fimm milljónir – sem er reyndar álíka galið enda átta ára gamall Land Rover. Í apríl í fyrra kom hann inn á gegn Manchester City og spilaði síðustu 12 mínúturnar. Hann náði að koma einu sinni við boltann. Það hlýtur að vera dýrasta snerting í sögu fótboltans. Það hlýtur bara að vera.

Sanchez sló í gegn ungur með Udinese á Ítalíu og var keyptur til Barcelona þar sem hann skoraði 39 mörk í 88 leikjum á þremur árum. Arsenal keypti hann fyrir sex árum á 32 milljónir punda og sagði Arsené Wenger að Sanchez hefði sýnt sig og sannað undanfarin ár sem einn stöðugasti leikmaður heims og stuðningsmenn liðsins ættu að hlakka til að sjá hann í treyju félagsins. Með félaginu sýndi hann oft snilldartilþrif og það er í raun ótrúlegt að það sé verið að ræða sama leikmann.

Fyrir að skrifa undir hjá Manchester, bara að skrifa nafnið sitt á samninginn, fékk hann 6,7 milljónir punda eða aðeins meira en milljarð króna. Fyrir sæti í byrjunarliðinu fékk hann 75 þúsund pund eða rúmar 14 milljónir. Þá átti hann að fá 1,1 milljón punda á ári, eða rúmar 200 milljónir, í svokallaðan hollustubónus. Hann átti að fá tvær milljónir punda, um 400 milljónir, þegar hann myndi skora sitt 40. mark fyrir félagið og eina milljón punda ef félagið ynni Meistaradeildina. Ekkert af þessu rættist eins og flestir vita því Sanchez skoraði aðeins fimm mörk í 45 leikjum fyrir félagið. Þrjú komu í ensku deildinni. Dimitar Berbatov skoraði einu sinni fimm mörk í einum og sama leiknum. Laurent Blanc skoraði fjögur mörk fyrir félagið og hann stóð aftast í vörninni. Karel Poborsky skoraði einu marki meira en Sanchez og ekki var hann nú sérstaklega eftirminnilegur fyrir félagið – fyrir utan hárið auðvitað. Fyllibyttan Darron Gibson negldi tíu mörk fyrir Manchester-liðið í 37 leikjum. Svona er hægt að halda lengi áfram. Þetta var ein allsherjarmartröð, ekki aðeins fyrir Sanchez heldur einnig Manchester United.

Þegar aðrir leikmenn lásu blöðin og sáu að Sanchez var að vinna risastóran lottóvinning í hverri viku komu umboðsmenn þeirra að máli við stjórn Manchester og kröfðust þess að skjólstæðingar þeirra fengju betri samninga. David de Gea var einn þeirra sem fengu ofursamning. Hann hefur nú ekki beint sýnt mikið eftir að hann krotaði undir þann samning. Paul Pogba á eftir að setjast að samningaborðinu og ýmsir fleiri sem teljast lykilmenn. Félagið er nú eitthvað að reyna að vinda ofan af þessari vitleysu.

Það voru ekki mörg félög tilbúin að taka við Sanchez þegar Ole Gunnar Solskjær gafst endanlega upp á kappanum. Manchester þurfti því að borga ansi væna summu af samningnum til að losna við hann. Þegar hann samdi við Inter um að koma í lán borgaði Manchester stóran hluta launa hans. Eftir erfiða byrjun sýndi Sanchez að hann kunni ennþá eitthvað fyrir sér í fótbolta og hefur nú yfirgefið enska boltann fyrir þann ítalska. Og það eftir 154 leiki, 63 mörk og 31 stoðsendingu, sem er í raun frábær tölfræði, en verst að hún er í raun bara frá Arsenal-tímanum.

Meiðsli plöguðu Sanchez mikið hjá Man­ch­ester United og var hann meira og minna uppi í stúku að telja seðlana sína –en félagið lagði inn á reikninginn hans um 70 milljónir í hverri viku.