Mika­el Leó Aplicen vann afar sannfærandi sigur þegar hann mætti Ma­rek Zach­ar frá Slóvakíu í átta manna úr­slit­um á heimsbikarmóti áhugamanna í MMA í Prag í Tékklandi í dag.

Þessi 18 ára bardagamaður, sem kepp­ir í 61kg flokki, bant­an­vigt, í flokki 18-21 árs, hafði betur í öllum þremur lotum bardagans og var svo lýstur sigurvegari með dómaraákvörðun.

Mikael Leó ætlaði greinilega að taka bardagann snemma í gólfið og fór strax í fellu sem hann náði. Í gólfinu valdi hann höggin sín vel, notaði mjaðmirnar vel til að núlla út ógnir Slóvakans og var mjög öruggur ofan á.

Í annarri lotu var það sama upp á teningnum en Mikael Leó náði enn fleiri höggum inn úr betri stöðum í gólfinu. Mikael Leó því búinn að vinna báðar loturnar og má færa rök fyrir því að önnur lota hafi verið skoruð 10-8 Mikael Leó í vil, slíkir voru yfirburðirnir.

Öflugur andstæðingur handan við hornið

Zachar vissi áður en þriðja lota byrjaði að hann þyrfti að klára til að eiga von á sigri. Hann byrjaði því geyst og sveiflaði villt í von um að ná rothöggi en Mikael Leó svaraði í sömu mynt, lenti góðum höggum og spörkum áður en hann skaut aftur í fellu.

Slóvakinn greip um höfuð Mikael Leó í von um að ná „guillotine“ hengingu en Mikael Leó varðist vel og var aldrei í hættu þó Slóvakinn hafi haldið hengingunni í um það bil mínútu. Mikael Leó kláraði bardagann ofan á gólfinu.

Í gær lagði Mikael Leó að velli ríkjandi Evrópumeistara í Combat Sambó í 16 manna úrslitum mótsins. Mikael Leó mætir öðrum ríkjandi Evrópumeistara, Otabek Rajabov frá Tads­ík­ist­an, í undanúrslitum mótsins á morgun.

Þar er um að ræða mjög öflugan andstæðing og það verður við ramman reip að draga hjá Mikael Leó sem stefnir á sigur á mótinu. Bardaginn verður í beinni á IMMAF.TV og verður um níuleitið í fyrramálið. Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóða MMA sam­ba nd­ið, IMM­AF, heldur heims­bikar­mót.