Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn í fótbolta, Mikael Egill Ellertsson, er að öllum líkindum á leið frá ítalska B-deildarliðinu Spal til A-deildarliðsins Spezia.

Það er Björn Már Ólafsson, sérfræðingur um ítalskan fótbolta, sem greinir frá því að ítalskir fjölmiðlar slái þessu nánast sem föstu.

Þá segir Björn Már að Juventus hafi einnig augastað á þessum 19 ára gamla sóknarþenkjandi leikmanni sem skoraði þrennu fyrir Spal í æfingaleik í vikunni. Hann hefur ekki enn leikið mótsleik fyrir Spal en Mikael Egill hefur leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Mikael Egill, sem gekk til liðs við Spal frá uppeldisfélagi sínu, Fram, árið 2017 myndi leika undir stjórn Thiago Mottahjá Spezia en samkvæmt Birni Má mun Motta reiða sig á unga og efnilega leikmenn á komandi keppnistímabili.

Fyrir A-deildinni eru Andri Fannar Baldursson hjá Bologna og Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason sem leika með nýliðum Venezia. Birkir Bjarnason er svo á mála hjá B-deildarliðinu Brescia og Hjörtur Hermannsson samdi nýverið við Pisa sem sömuleiðis leikur í B-deildinni á næstu leiktíð.

Emil Hallfreðsson er svo í herbúðum C-deildarliðsins Padova en auk fyrrgreindra leikmanna hafa fjölmargir ungir íslenskir leikmenn gengið til liðs við ítölsk félög upp á síðkastið.