Íslenska karlalandsliðið í handbolta sýndi sitt rétta andlit og komst aftur á beinu brautina í gær þegar Strákarnir okkar unnu þriggja marka sigur á spútnikliði Portúgal, 28-25. Úrslit gærdagsins í riðli Íslands þýða að Ísland á enn möguleika á að komast í umspilið fyrir Ólympíuleikana en til þess þarf Ísland að vinna nágrannaríki okkar, Svía og Dani, í lokaleikjum milliriðilsins og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Það voru viss spurningarmerki yfir íslenska liðinu í aðdraganda leiksins. Sóknarleikur liðsins hafði verið kaflaskiptur í leikjunum tveimur á undan og hafði liðið ekki náð að fylgja eftir stórkostlegum sigrum á Dönum og Rússum í upphafi móts.

Selfyssingurinn Janus Daði Smárason fékk tækifærið strax í byrjun og var fljótur að láta til sín taka. Strax í fyrstu sókninni braut hann sér leið fram hjá portúgölsku vörninni og skoraði með þéttingsföstu skoti. Þar sást að Janusi leið vel og hann væri tilbúinn í þennan leik og setti tóninn fyrir það sem koma skyldi hjá Íslandi og Janusi.

Spútniklið Portúgals hafði komið á óvart til þessa á mótinu með öflugum varnarleik og sóknarleik í yfirtölu sem lið áttu engin svör við. Það sást best í því að Portúgalar áttu stóran þátt í því að senda Frakka heim af mótinu með skottið á milli lappanna og tíu marka sigri á Svíum á heimavelli þeirra.

Portúgalarnir réðu hins vegar ekkert við hraðan sóknarleik Íslands með Janus í broddi fylkingar á upphafsmínútunum. Janus kom að tveimur af fyrstu fimm mörkum Íslands og þremur af fyrstu níu mörkum Ísland þegar Strákarnir okkar komust óvænt 8-2 yfir á upphafsmínútum leiksins.

Portúgalar komust inn í leikinn þegar líða tók á fyrri hálfleikinn en tvö mörk frá Janusi eftir undirbúning Arons Pálmarssonar sáu til þess að Ísland leiddi í hálfleik.

Selfyssingurinn hafði hægar um sig í seinni hálfleik en skilaði þremur mörkum á mikilvægum tíma þegar Portúgalarnir reyndu að loka á sóknarleik Íslands með því að stöðva Aron Pálmarsson. Alexander Petersson gerði vel og mataði Janus þrisvar inni á línunni með góðum sendingum.

Landsliðsferill Janusar virðist vera kominn á flug og verður gaman að sjá hvort honum verður treyst til að stýra sóknarleiknum gegn Noregi, einu sterkasta landsliði heims, á morgun. Eftir að hafa misst af síðasta stórmóti Íslands þar sem Janus var ekki valinn í HM-hópinn hefur Selfyssingurinn stigið upp um eitt skref með leik sinn. Hann heldur áfram að fara á kostum með félagsliði sínu, Álaborg, í dönsku deildinni og Meistaradeild Evrópu sem vakti áhuga þýskra liða og mun hann spreyta sig í þýsku deildinni frá og með næsta tímabili.

Selfyssingurinn var á sínum tíma valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar eftir að hafa leitt lið Hauka til sigurs á Íslandsmótinu og var einn besti leikmaður Álaborgar þegar liðið vann danska meistaratitilinn í fyrra. Núna er það undir honum komið að fylgja því eftir þegar hann heldur til Þýskalands síðar á þessu ári.