Miðvallarleikmennirnir Miralem Pjanic sem leikur með ítalska liðinu Juventus og Arthur sem spilar með Barcelona munu skipta um félög í sumar. Kaupverðin eru ámóta og því er nánast um skipti á leikmönnum að ræða.

Barcelona hefur staðfest vistaskipti Arthur Melo til Juventus en hann kom til Katalóníuliðsins frá brasilíska liðinu Gremio árið 2018. Þá mun Barcelona eða Juventus kynna félagaskipti Pjanic sem hefur leikið hjá Tórínómönnum síðan árið 2016 innan tíðar.

Báðir munu þeir klára keppnistímabilin hjá liðum sínum en Barcelona er tveimur stigum á eftir Real Madrid. Juventus er hins vegar fjórum stigum á undan Lazio í baráttu sinni um að verða ítalskur meistari níunda árið í röð. .