Miðasala fyrir opna bandaríska meistaramótið í tennis hefur tekið kipp upp á við eftir tilkynningu Serenu Williams þess efnis að mótið verði hennar síðasta á ferlinum. Frá þessu er greint á vefsíðu Reuters en Williams ætlar sér að stækka fjölskyldu sína og mun því leggja spaðann á hilluna.

Adam Budelli, talsmaður StubHub miðasölukerfisins segir í samtali við Reuters að það sé venjan að miðasala taki kipp eftir að íþróttamaður sem leikur á umræddum viðburði tilkynnir um lokamót sitt fyrirfram.

,,Við sjáum það sérstaklega núna í tengslum við tilkynningu Serenu Williams sem er án efa ein besta tenniskona sögunnar."

Adam segir aukningu eftir miða á mótið hafa áttfaldast frá því sem fyrir var eftir tilkynningu Williams en góðu fréttirnar fyrir þá sem ætla sér að mæta á svæðið séu þær að meðal miðaverð á mótið hafi ekki hækkað frá tilkynningu Williams.