Phil Mickelson, einn vinsælasti kylfingur heims undanfarna áratugi, virtist utangátta og ólíkur sjálfum sér þegar hann tók við spurningum fjölmiðlamanna í aðdraganda Opna bandaríska meistaramótinu sem hefst á morgun.

Þetta er í fyrsta sinn sem Mickelson ræðir við fjölmiðla Vestanhafs í fjóra mánuði. Eins og frægt er tilkynnti hann á dögunum að hann myndi færa sig um set af PGA-mótaröðinni til að taka þátt á LIV-mótaröðinni.

Talið er að Mickelson hafi þénað um 200 milljónir dollara fyrir skiptin og er hann eitt helsta andlit mótaraðarinnar en hann gagnrýndi mótshaldara LIV-mótaraðarinnar fyrr á þessu ári.

Mickelson sem er meðal þátttakenda á Opna bandaríska meistaramótinu, þriðja risamóti ársins eftir að hafa misst af fyrstu tveimur risamótum ársins, var ólíkur sjálfum sér á blaðamannafundi gærdagsins.

Hann tók sér tíma til að hugsa hvert svar, ólíkt því góða flæði sem hefur einkennt Mickelson í viðtölum og lýsti yfir óánægju sinni með spurningar blaðamanns um tengsli LIV-mótaraðarinnar við hryðjuverkaárásina í Bandaríkjunum í septembermánuði 2001.