Knattspyrnumaðurinn Elías Már Ómarsson hefur byrjað yfirstanandi leiktíð mjög vel með liði sínu Excelsior sem leikur í hollensku B-deildinni. Raunar var Elías Már á góðu róli þegar keppni var hætt á síðasta keppnistímabili vegna kórónaveirufaraldursins og því má segja að hann sé að halda uppteknum hætti með markaskorun sinni.

„Það tók við nýr þjálfari um mitt síðasta tímabil og við það breyttist hlutverk mitt hjá liðinu. Ég byrja flestalla leiki uppi á topp sem framherji og svo fer ég vanalega í tíuna þegar það við skiptum um framherja í miðjum leik. Ég hef leikið alla leiki nema tvo til enda á þessari leiktíð og ég finn fyrir miklu trausti frá þjálfarateyminu.

Ég fæ þá tilfinningu í hverjum leik að það sé stutt í að ég muni skora og það er erfitt að útskýra af hverju sú tilfinning kemur. Það er hins vegar gott að finna fyrir trausti frá þjálfaranum og svo gefur hvert mark sjálfstraust til þess að skora annað,“ segir Elías Már í samtali við Fréttablaðið.

„Við erum með fínt lið en það er engin krafa á það að fara upp um deild þó við gætum það alveg. Félagið er þannig rekið að hér eru ungir leikmenn sem fara til stærri félaga þegar það býðst og svo er nokkur velta á lánsmönnum, aðallega úr hollensku efstu deildinni og frá Belgíu," segir hann um lið sitt.

Rennur út á samningi næsta sumar

„Mér líður mjög vel hérna en félagið veit það vel að ég stefni á að spila í sterkari deild á næstu tímabilum. Það er fullur skilningur á því en á meðan ég er hérna er ég með fullu einbeitingu á því að halda áfram að standa mig vel og bæta mig,“ segir sóknarmaðurinn sem skoraði 12 mörk síðasta vetur en níu þeirra komu eftir áramót þegar nýi þjálfarinn var tekinn við.

„Ég renn út á samningi hér næsta sumar en félagið hefur rétt á því að framlengja samninginn við mig. Þeir vita hins vegar af því eins og áður segir að ég hef hug á því að fara í sterkari deild ef það verður í boði. Það eru fá félög að eyða miklum peningum í leikmenn vegna kórónaveirufaraldursins þannig að ég býst við því að klára tímabilið hérna og sjá svo til hvernig staðan verður næsta sumar,“ segir hann um framhaldið.

Umræða hefur verið um hvort frammistaða Elías Más eigi að skila honum sæti í íslenska landsliðinu í komandi verkefnum liðsins en Keflvíkingurinn segist lítið vera að velta því fyrir sér. „Eins og alla íslenska knattspyrnumenn dreymir mig um að spila reglulega með landsliðinu.

Ég hef hins vegar ekki verið valinn í þó nokkurn tíma og því er þetta ekki eitthvað sem ég er mikið að pæla í þessa stundina. Ef kallið kemur yrði ég auðvitað ofboðslega stoltur og ánægður en á meðan þeir leikmenn sem eru að spila standa sig jafn vel og þeir hafa gert þá er ekki mikil ástæða til þess að breyta,“ segir þessi 25 ára leikmaður um mögulegt landsliðsval í framtíðinni.