Áhugi á knattspyrnu kvenna hefur farið sívaxandi undanfarin ár, réttilega og alveg ljóst að met verða slegin hvað áhorfendatölur varða á Evrópumótinu í knattspyrnu sem hefst í Manchester á Englandi í kvöld.

Nú þegar hafa yfir 450 þúsund miðar verið seldir á leiki mótsins og búist er við því að sú tala fari yfir 500 þúsund.

Af þessum fjölda miða hafa yfir 73 þúsund miðar verið seldir á opnunarleik kvöldsins milli Englands og Austurríkis á Old Trafford.

Það er allt til reiðu á Old Trafford
Fréttablaðið/GettyImages

Þá hafa yfir 87 þúsund miðar verið seldir á úrslitaleik mótsins sem fer fram á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley.

Á Evrópumótinu árið 2017 í Hollandi var áhorfendamet slegið þegar 240 þúsund miðar voru seldir á leiki mótsins. Það met kolfellur nú á Evrópumótinu á Englandi.

Þróunin upp á við

Þetta hefur verið þróunin í kvennaknattspyrnunni undanfarið. Áhorfendamet hafa verið slegin víðs vegar um heim.

Nærtækasta dæmið er að nefna fyrri leik Barcelona og Wolfsburg á Camp Nou leikvanginum í Barcelona þar sem yfir 91 þúsund áhorfendur sáu til þess að met frá úrslitaleik HM árið 1999 var slegið.

Þá voru áhorfendamet einnig slegin í Frakklandi, Englandi og Svíþjóð. Listinn er ekki tæmandi.