Metaðsókn var á leiki fyrstu umferðar í ensku kvennadeildinni í knattspyrnu stuttu eftir að Ljónynjurnar nældu í bronsverðlaunin á HM í sumar.

Kvennaknattspyrna er í mikilli sókn í Englandi og tefla Manchester United og Tottenham fram liði í efstu deild í fyrsta sinn í vetur.

Alls voru 62.921 sem mættu á leikina sex sem þýðir að meðaltali voru 10.486 manns á hverjum leik, ári eftir að 5167 manns mættu á leiki fyrstu umferðar.

Stóran þátt í því átti nágrannaslagur Manchester City og Manchester United sem fór fram á Etihad-vellinum þar sem 31.213 manns voru mættir.

Þá fór leikur Chelsea og Tottenham fram á Stamford Bridge fyrir framan 24.564 manns.