Lionel Messi, fyrir­liði argentínska lands­liðsins í knatt­spyrnu var að vonum ó­sáttur eftir 2-1 tap Argentínu gegn Sádi-Arabíu í fyrstu um­ferð HM í Katar í dag.

,,Þetta eru kring­um­stæður sem þessi hópur leik­manna hefur ekki upp­lifað áður, það hefur liðið langt síðan að við urðum fyrir svona höggi, þetta var ekki byrjunin sem við bjuggumst við," sagði Messi í sam­tali við argentínska fjöl­miðla eftir leik dagsins.

Messi kom Argentínu yfir með marki úr víta­spyrnu í fyrri hálf­leik, hálf­leik sem Argentína réði lögum og lofum í en allt annað var uppi á teningnum í síðari hálf­leik þar sem Sádi-Arabar skoruðu tvö mörk í upp­hafi hálf­leiksins með fimm mínútna milli­bili.

,,Fimm mínútur mis­taka sem við gerðum, lentum 2-1 undir og þá varð þetta erfitt fyrir okkur, skipu­lag okkar fauk út um gluggann."

Messi segist hafa verið með­vitaður um ógnirnar í leik Sádi-Arabíu.

,,Við vissum að þetta er lið sem gæti spilað vel ef við myndum leyfa þeim að gera það...Þeir komu okkur ekki á ó­vart, við vissum að þeir gætu gert okkur þetta."

Argentína þar nú úr­slit gegn bæði Mexíkó og Pól­landi í næstu leikjum sínum í riðla­keppninni.

,,Það er undir okkur komið að laga það sem fór úr­skeiðis og fara aftur í grunn­gildi okkar. Auð­vitað særa þessi úr­slit okkur en stuðnings­menn verða að treysta á að við munum leggja allt á okkur í næstu leikjum. Við höfum spilað svona leiki áður og munum standa okkur."

Það reyni á leik­manna­hóp argentínska lands­liðsins að þjappa sér saman núna og sýna styrk sinn.