Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi sem leikur fyrir Barcelona er efstur á lista viðskiptatímaritsins Forbes yfir tekjuhæstu knattspyrnumenn ársins 2020.

Forbes áætlar að Messi þéni rúmlega 17 milljarða íslenskar krónur. Næstur á listanum er Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus, sem fær tæplega 16 milljarða í tekjur á þessu ári.

Liðsfélagarnir hjá PSG, Neymar og Kylian Mbappé, eru svo í þriðja og fjórða sæti á listanum. Raunar er það svo að Neymar fær hærri laun frá PSG en Ronaldo frá Juventus en auglýsingatekjurnar sem portúgalska stórstjarnan fær í sinn hlut hífa hann upp fyrir brasilíska sóknarmanninn á listanum.

Neymar fær um það bil tvöfalt meira en samherji sinn Mbappé sem er hins vegar hástökkvari listans.

Talið er svo Mbappé muni höggva nærri Neymar þegar hann gerir næsta samning sinn eftir að núgildandi samningur hans rennur út árið 2021 hvort sem það verði hjá PSG eða annars staðar. Frakkkar eiga flesta fulltrúa á listanum eða þrjá talsins.

Listann má sjá hér að neðan:

  1. Lionel Messi (Barcelona og Argentína) rúma 17 milljarða
  2. Cristiano Ronaldo (Juventus og Portúgal) tæpa 16 milljarða
  3. Neymar (Paris St-Germain og Brasilía) tæpa 13 milljarða
  4. Kylian Mbappe (Paris St-Germain og Frakkland) tæpa 6 milljarða
  5. Mohamed Salah (Liverpool og Egyptaland) tæpa 5 milljarða
  6. Paul Pogba (Manchester United og Frakkland) tæpa 5 milljarða
  7. Antoine Griezmann (Barcelona og Frakkland) rúma 4 milljarða
  8. Gareth Bale (Real Madrid og Wales) tæpa fjóra milljarða
  9. Robert Lewandowski (Bayern München og Pólland) tæpa fjóra milljarða
  10. David de Gea (Manchester United og Spánn) tæpa fjóra milljarða