Lionel Messi sem varð spænskur meistari með Barcelona og er fyrirliði argentínska karlalandsliðsins í knattspyrnu fékk í kvöld Ballon d'Or í sjötta skipti en hann tók þar af leiðandi fram úr Cristiano Ronaldo. Messi skoraði 46 mörk í 54 leikjum fyrir Barcelona og Argentínu á árinu 2019.

Hollenski landsliðsmaðurinn Virgil van Dijk sem var lykilleikmaður í vörn Liverpool sem bar sigur úr býtum í Meistaradeild Evrópu síðastliðið vor varð í öðru sæti. Cristiano Ronaldo leikmaður Juventus og Portúgal sem vann Þjóðadeild Evrópu varð þriðji.

Megan Rapinoe sem varð heimsmeistari með Bandaríkjunum í sumar var valin best í kvennaflokki. Þetta er í annað skipti sem verðlaunin eru veitt í kvennaflokki en norski framherjinn Ada Hegerberg var valin fyrst allra í fyrra.

Lucy Bronze sem vann Meistaradeild Evrópu með franska liðinu Lyon síðasta sumar og í fjórða sæti með enska landsliðinu á HM varð önnur í kjörinu og Alex Morgan sem varð sömuleiðis í heimsmeistaralið Bandaríkjanna og leikur með Orlando Pride varð þriðja.

Alisson Becker landsliðsmarkvörður Brasilíu og markvörður Liverpool sem sigraði Meistaradeild Evrópu í vor var valinn besti markvörðurinn. Verðlaunin voru í fyrsta skipti skírð í höfuðið á sovéska markverðinum Lev Yashin.

Mathijs de Ligt sem varð tvöfaldur meistari með Ajax í Hollandi, fór svo til ítalska liðsins Juventus í sumar og lék vel með hollenska landsliðinu á árinu var valinn besti ungi leikmaðurinn.