Lionel Messi er ekki staðráðinn í að framlengja samning sinn við spænska knattspyrnufélagið Barcelona samkvæmt því sem fram kemur í þarlendum fjölmiðlum. Messi sem er 33 ára gamall á eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en gustað hefur um félagið undanfarið.

Má þar dæma herferð á vegum fyrirtækisins Sahara sem hafði það að markmiði að fegra hlut stjórnar Barcelona á samfélagsmiðlum og um leið þagga niður gagnrýni stórstjarna liðsins. Josep Bartomeu, forseti Barcelona, ku hafa greitt þessu fyrirtæki fyrir fyrrgreinda þjónustu.

Þá lenti Messi í orðaskaki við Eric Abidal, yfirmann knattspyrnumála hjá Barcelona, fyrr á yfirstandandi keppnistímabili eftir að Abidal gagnrýndi Messi og liðsfélaga hans fyrir að hafa ekki lagt sig fram undir stjórn Ernesto Valverde sem vék fyrir Quique Setién í þjálfarastólnum fyrr á leiktíðinni.

Líklegt er að önnur félög muni fylgjast með gangi mála í samningaviðræðum Messi við Barcelona og falast eftir kröftum hans ef illa gengur að ná saman. Barcelona hafði betur gegn Villareal í spænsku efstu deildinni gær en Börsungar eru fjórum stigum á eftir efkifjanda sínum Real Madrid sem trónir á toppi deildarinnar.

Bartomeu segir hins vegar í samtali við spænska fjölmiðla að viðræður við Messi gangi vel og hann telji að langtímasamningur verði undirritaður innan tíðar. Forsetinn er á því máli að Messi muni enda feril sinn í Barcelona-búningnum.