Sport

„Messi getur tekið upp á hverju sem er“

Hannes Þór Halldórsson hefur náð sér af nárameiðslum og er klár í leikinn gegn Argentínu. Hann segir að Lionel Messi sé óútreiknanlegur og enginn hægðarleikur að undirbúa sig undir að mæta honum.

Hannes í loftköstum. Þýski þrekþjálfarinn Sebastian Boxleitner fylgist með. Fréttablaðið/Eyþór

Hannes Þór Halldórsson hefur glímt við nárameiðsli að undanförnu en lék allan leikinn þegar Ísland gerði 2-2 jafntefli við Gana í vináttulandsleik á fimmtudaginn.

„Það gekk vel að spila gegn Gana í einhverjum 7-8 gráðum svo ég held að það verði ekkert vandamál að lúðra boltanum fram völlinn þegar ég er kominn í 30 gráðurnar hérna,“ sagði Hannes fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í gær.

Markvörðurinn segir allar aðstæður í Rússlandi eins og best verður á kosið.

„Þetta er góður völlur og fínar aðstæður. Það fer vel um okkur á hótelinu. Það er ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Hannes. Íslenski hópurinn dvaldi í Annecy á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum og segir Hannes að samanburðurinn við þann stað sé ekki sanngjarn.

Hannes segir aðstæður í Rússlandi allar hinar bestu. Fréttablaðið/Eyþór

„Þetta er ósanngjarn samanburður við Frakkland. Hótelið þar var algjör paradís á jörð. Það er ósanngjarnt gagnvart þessum aðstæðum, sem eru mjög góðar, að vera alltaf með Frakkland til samanburðar. En það er ekki hægt að vera með hugann þar endalaust.“

Hannes segir að íslenska liðið muni fara nánar yfir leik þess argentínska á næstu dögum en liðin mætast í Moskvu á laugardaginn kemur.

„Fyrsti fundurinn var um Argentínu en það er svolítið síðan núna. Þessi leikur berst reglulega í tal og við erum byrjaðir að huga að einhverjum áhersluatriðum. En stóru fundirnir eru eftir, þar sem við sökkvum okkur í þá,“ sagði Hannes.

Hannes ræðir við blaðamenn. Fréttablaðið/Eyþór

Á laugardaginn þarf Hannes að kljást við snillinginn Lionel Messi. En hvernig undirbýr markvörður sig fyrir slíkt verkefni?

„Við undirbúum okkur ekkert sérstaklega. Þetta snýst um að vera eins skarpur og maður getur mögulega verið. Leikmaður eins og Messi getur tekið upp á hverju sem er. Það er ómögulegt að lesa hann. Hann getur sett hann upp í bæði samskeytin, milli fóta manns, vippað, skotið með hægri og vinstri og með jörðinni. Maður þarf að vera klár í hvað sem er,“ sagði Hannes. 

„Ég held að þetta snúist um að fara inn í leikinn með sjálfstraust og trú á að þetta muni ganga upp. Og vera í eins góðu formi og mögulegt er og vona að hann hitti ekki á sinn besta leik. Þá eru möguleikar til staðar.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Frjálsar íþróttir

Markmiðið var að vinna gull

Handbolti

Selfoss á toppinn

Auglýsing

Nýjast

Snæfell áfram með fullt hús stiga

Kristján Örn tryggði ÍBV stig í Mosfellsbæ

Keflavík gengur frá þjálfaramálum sínum

Barcelona komið í úrslit á HM

Bolt ekki á leiðinni til Möltu

Haukur og Dagur í hópi vonarstjarna Evrópu

Auglýsing