Formúlu 1 lið Mercedes er sagt hafa staðið fyrir leynilegri prófun á bíl sínum í Frakklandi í gær með það fyrir augum að reyna finna lausn á vandamálum bílsins. Þetta kemur fram í frétt á vefmiðli Daily Mail í dag en George Russell er sagður hafa ekið bílnum í gær.

Búist er við því að flest lið kynni til leiks nýjar uppfærslur á sínum bílum um komandi keppnishelgi í Barcelona og gera má ráð fyrir því að Mercedes verði eitt af þeim liðum en Toto Wolff, liðstjóri liðsins hefur ekki gefið baráttuna um heimsmeistaratitlana á bátinn.

Mercedes er sem stendur´i 3. sæti í stigakeppni bílasmiða og þá hefur George Russell gengið betur að ná meira út úr bílnum heldur en sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamitlon.

Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso segir vandræði Hamilton felast í því hversu mikilvægt er að vera með góðan bíl í höndunum.

,,Lewis er að aka mjög vel, jafnvel og hann hefur gert undanfarin átta ár. Hann hefur átt sviðið í íþróttinni og slær hvert metið á fætur öðru en núna nær hann frábærum hring en er einni sekúndu hægari en fremsti maður. Þetta er Formúla 1. Þetta gerðist fyrir mig eftir að ég vann tvo heimsmeistaratitla.

,,Ég var að hafa betur en Michael Schumacher, það var fréttapunkturinn en bíllinn sem ég ók var mjög áreiðanlegur og bjó yfir mikilli getu. Það má ekki vanmeta mikilvægi heildarpakkans (ökumanns og bíls) en á endanum er það alltaf ökumaðurinn sem verður að fyrirsögninni. Það sama er að gerast fyrir Lewis núna."