Hamilton tapaði heimsmeistaratitlinum á eftirminnilegan hátt til Max Verstappen á lokahringnum í lokakeppninni á síðasta tímabili og náði þar af leiðandi ekki að bæta við sínum áttunda heimsmeistaratitli og einu eftirsóttasta meti Formúlu 1 sem hann og Michael Schumacher deila og snýr að fjölda heimsmeistaratitla.

Í viðtali stuttu eftir að Formúlu 1 tímabilinu lauk sagðist Toto Wolff, liðstjóri Mercedes, það óvíst hvort að Hamilton, sem er á samningi hjá Mercedes til loka tímabils 2023, myndi snúa aftur.

Rykið er hins vegar farið að setjast núna, lítið sem ekkert hefur heyrst frá Hamilton síðan að tímabilinu lauk, hann hefur forðast það að ræða við fjölmiðla og var ekki viðstaddur á verðlaunahátið FIA í síðasta mánuði.

En í færslu sem Mercedes birti á samfélagsmiðlum í gær má draga sterka vísbendingu um það hvað Hamilton hyggst gera. ,,Mótlæti brýtur suma, aðrir brjóta met," segir í texta við mynd sem Mercedes af Hamilton.

Líklegasta útkoman úr þessu öllu saman er sú að Hamilton mæti ferskur til leiks á næsta tímabili og reyni að ná í þennan eftirsótta áttunda heimsmeistaratitil og skipa sér þar með sérstöðu í sögu Formúlu 1.