Íslenski boltinn

„Mér fannst þetta vera rétta starfið fyrir mig“

Erik Hamrén segir það stórt verkefni að halda íslenska landsliðinu í fremstu röð. Hann vonast til að geta bætt íslenska liðið. Hamrén ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu leikjunum í nýja starfinu.

Erik Hamrén á milli Freys Alexanderssonar og Guðna Bergssonar á blaðamannafundinum í Laugardalnum. Fréttablaðið/Þórsteinn

Erik Hamrén er nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann var kynntur til leiks á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í gær. Svíinn gerði tveggja ára samning við Knattspyrnusambandið með möguleika á tveggja ára framlengingu.

„Þetta voru snarpar samningaviðræður og við vorum með 5-6 aðila í huga í upphafi ráðningarferlisins. Fljótlega urðum við ásáttir um það að Erik Hamrén væri fyrsti kostur okkar í starfið,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á blaðamannafundinum í gær.

En hvað var það sem heillaði Hamrén við starf landsliðsþjálfara Íslands?

„Þetta lið hefur verið gott í 5-6 ár og náð frábærum úrslitum. Þetta er áhugaverð áskorun. Getum við haldið áfram að ná góðum úrslitum og þróað liðið áfram?“ sagði Hamrén í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann segir að áskorunin að halda Íslandi í fremstu röð sé stór og mikil.

„Ég hef verið þjálfari á hæsta getustigi síðan 1994 og ég hef þurft að glíma við margar áskoranir. En þetta er kannski mesta áskorunin mín út af væntingunum til liðsins. Þetta er mikil áskorun og ég nýt þess að takast á við hana. Ég hlakka til að byrja,“ sagði hinn 61 árs gamli Hamrén.

Hamrén býr yfir mikilli reynslu og hefur unnið titla í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Fréttablaðið/Þórsteinn

Hann segir að nýjum þjálfara fylgi alltaf breytingar. Hann muni þó fara varlega í að umbylta öllu og hugsi fyrst og fremst um að bæta leik íslenska liðsins.

„Sem þjálfari viltu alltaf bæta allt, bæði það góða og slæma,“ sagði Hamrén. „Ég vil ræða við leikmennina áður en ég fer út í smáatriði. Það er mikilvægt að segja þeim hvaða hugmyndir ég hef áður en ég segi fjölmiðlum það.“

Í fyrstu fimm leikjum Hamréns sem landsliðsþjálfari mætir Ísland heimsmeisturum Frakklands, bronsliðinu frá HM, Belgíu, og svo sterku liði Sviss. Byrjunin gæti því vart verið erfiðari.

„Það verður mikil áskorun. Þegar Lars [Lagerbäck] tók við fékk hann nokkra vináttulandsleiki. Þar getur þú prófað ýmsa hluti og þarft ekki að hafa miklar áhyggjur af úrslitunum. En núna förum við strax í stóra leiki. Við lítum jákvæðum augum á það og reynum að ná góðum úrslitum þótt við séum ekki að spila við neina aukvisa,“ sagði Hamrén.

Hann ætlar að reyna að fá Ragnar Sigurðsson til að endurskoða ákvörðun sína um að leggja landsliðsskóna á hilluna. „Ég mun kanna hver hugur hans er varðandi framtíðina með landsliðinu. Ragnar hefur verið lykilleikmaður hjá liðinu á síðustu árum og ég vonast til þess að svo verði áfram.“

Hamrén og Zlatan náðu vel saman. Fréttablaðið/Getty

Þegar Hamrén þjálfaði sænska landsliðið á árunum 2009-16 náði hann því besta út úr ofurstjörnunni Zlatan Ibrahimovic. Hann segir það ekki erfitt að þjálfa stóra persónuleika eins og Zlatan.

„Því betri sem leikmaðurinn er því auðveldara er að þjálfa hann. Þegar ég vann með Zlatan var ég oft spurður hvort það væri ekki erfitt að vinna með svona stórstjörnu. Ég svaraði alltaf neitandi. Samkvæmt minni reynslu er það ekki erfitt. Stóru leikmennirnir vita hvað til þarf. Vandamálið er að vinna með leikmönnum sem halda að þeir séu stjörnur en eru það ekki,“ sagði Hamrén.

Hann hætti með sænska landsliðið eftir EM 2016 og hefur ekki þjálfað síðan. Undanfarna mánuði hefur hann starfað fyrir Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku.

„Ég þurfti frí eftir sjö ár með sænska liðinu. Það voru nokkrir möguleikar í stöðunni eftir EM en ég þurfti hvíld. En svo kom löngunin á ný. Ég fékk tækifæri til að starfa á Norðurlöndunum en mig langaði til að gera eitthvað nýtt. Þess vegna fór ég að starfa í Suður-Afríku. Ég var þar í sjö mánuði. Það var öðruvísi reynsla og ég lærði mikið. Ég naut þess en ég vildi þjálfa aðeins lengur. Þegar þessi möguleiki kom upp fannst mér þetta vera rétta starfið fyrir mig,“ sagði Hamrén að lokum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Íslenski boltinn

Leystu verkefnið fagmannlega í Andorra

Íslenski boltinn

Ísland hóf undankeppnina með sigri

Íslenski boltinn

Aron og Alfreð byrja báðir

Auglýsing

Nýjast

Veit vel hversu gott lið Ísland er með

Birkir reynst Frökkum erfiður undanfarin ár

Fékk þau svör sem ég var að leitast eftir

Hef góða tilfinningu fyrir leiknum

Grindavík jafnaði metin | Njarðvík komið 2-0 yfir

Sigur á Selfossi kemur Haukum í lykilstöðu

Auglýsing