Benjamin Mendy, bakvörður Manchester City mætir fyrir dómstóla á morgun þar sem mál hans verður tekið fyrir. Tvær nauðgunarkærur hafa bæst við málið og er hann nú ákærður fyrir sex nauðganir og eitt kynferðisbrot.

Mendy og vinur hans, Louis Saha Matturie eru ákærðir fyrir sex nauðganir og eitt kynferðisbrot gegn fjórum einstaklingum sem eru allar eldri en sextán ára.

Fyrsta brotið átti sér stað á síðasta ári og það síðasta á þessu ári en Mendy var settur í leyfi frá störfum hjá Manchester City á dögunum þegar hann var handtekinn og færður í fangelsi vegna brotanna.

Hinn 27 ára gamli Mendy varð á sínum tíma dýrasti bakvörður heims þegar Manchester City keypti þáverandi franska landsliðsbakvörðinn frá Monaco en meiðsli hafa sett strik í reikninginn á ferli hans í Englandi.