Jens Lehmann á ekki von á því að nokkuð lið nái að stöðva Liverpool það sem eftir lifir tímabilsins en telur að meistaralið Arsenal árið 2004 myndi hafa betur gegn lærisveinum Jurgen Klopp.

Liverpool hefur ekki tapað leik á þessu tímabili eftir 26 leiki og vantar því tólf leiki til að jafna met Arsenal þegar Skytturnar töpuðu ekki einum leik á heilu tímabili.

Arsenal varð fyrsta liðið í 115 ár sem náði því árið 2004 en Liverpool virðist ætla að gera atlögu að meti Arsenal á þessu tímabili. Bítlaborgarmenn eiga eftir að mæta Chelsea, Arsenal og Manchester City í næstu tólf leikjum.

Þá hefur Liverpool ekki tapað í síðustu 43 leikjum og er sex leikjum frá því að jafna met Arsenal í efstu deild Englands.

„Saga þessa Liverpool liðs er ótrúlegt, þeir hafa allt til þess að fara í gegnum tímabilið án þess að tapa leik. Þeir eru frábærir á öllum sviðum og með heppnina með sér í liði sem þarf. Að mínu mati er það bara Manchester City sem getur komið í veg fyrir það,“ sagði Lehmann.

„Að mínu mati hefði okkar lið hjá Arsenal unnið þetta Liverpool-lið. Það hefði verið erfitt en það voru meiri einstaklingsgæði í okkar liði og meiri hraði. Það hefði gefið okkur forskot.“