Forkeppni Meistaradeildar Evrópu hefst á Víkingsvelli í dag með tveimur leikjum. Klukkan eitt mætast La Fiorita og Inter Club d'Escaldes í fyrri undanúrslita viðureigninni og í kvöld klukkan 19:30 taka heimamenn í Víkingi Reykjavík á móti Levadia Tallinn frá Eistlandi. Sigurvegararnir úr viðureignunum munu mætast í hreinum úrslitaleik um laust sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu seinna í vikunni.
Það ríkir mikil eftirvænting hjá stuðningsmönnum Víkings fyrir leik kvöldsins, loksins mun félagið leika heimaleik í Evrópukeppni eftir langa bið. Haraldur Haraldsson, framkvæmdarstjóri félagsins birti í morgun færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann fór í stuttu máli yfir sögu Víkinga í Evrópu.
,,Víkingur hefur aldrei unnið Evrópuleik. Í seinni tíð eru 3 leikir. Tvö jafntefli á útivelli í Slóveníu þar sem annar tapaðist í framlenginu og eitt tap heima með minnsta mun. Í kvöld ætlum við að skrifa söguna, sigra og ýta Íslandi upp listann," skrifar Haraldur.
Að ýta Íslandi upp listann skrifar Haraldur og það er ástæða fyrir því. Þátttaka Víkinga í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kemur ekki af góðu, vanalega hefur Ísland átt sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar. Slakur árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum undanfarin ár hefur orðið til þess að Ísland hefur misst sæti sitt í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu og því þarf fulltrúi landsins að hefja leik í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Allt annað en auðveldur leikur
Arnar Bergmann Gunnlaugsson er þjálfari Víkinga. Hann var í viðtali við Fréttablaðið á dögunum þar sem hann fór yfir sviðið fyrir leik kvöldsins gegn Levadia Tallinn en fyrirfram er talið að þessi tvö lið séu sterkustu lið forkeppninnar. Arnar bendir á að Flora Tallin, sem leikur í sömu deild og Levadia, hafi komist í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra en þó ekki tekist að skáka Levadia heima fyrir.
„Þetta er allt annar fótbolti en við fáum að venjast hér heima. Öll smáatriði þurfa að vera 100 prósent á hreinu. Og við erum að mæta liði sem er sterkt. Flora Tallin komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra og þeir unnu ekki einu sinni deildina, heldur þetta lið. Þannig að þetta eru tvö langbestu liðin í Eistlandi. Þetta verður hörkuleikur.“