Guðmundur Þór Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta sagði leik liðsins gegn Þýskalandi í kvöld hafa verið erfiðan. Íslenska liðið laut í lægra haldi fyrir því þýska og þurfti að sætta sig við 19-24 stiga tap þar sem þýska vörnin var með góðar gætur á sóknarleik Íslands frá fyrstu mínútu.

Í samtali við RÚV, stuttu eftir leikinn, sagði Guðmundur strákana hafa gefið allt í leikinn. „Ég verð að hrósa liðinu fyrir ofboðslega baráttu, þeir gáfu allt í leikinn, það vantaði ekkert upp á það,“ sagði Guðmundur. Sagðist hann hafa verið tiltölulega ánægður með megnið af fyrri hálfleik en liðið hafi gert sig seka um of mörg tæknileg mistök, á borð við lélegar línusendingar og að tapa boltanum til Þjóðverjanna. „Síðan kannski þegar við áttum möguleika á að minnka þetta núna ítrekað þá misnotuðum við dauðafæri.“

Sjá einnig: Góð frammistaða dugði ekki til gegn Þýskalandi

„Við bara nýttum ekki færin nóg og vel, það er ekki hægt í svona leik á móti svona liði. “ Sagði hann liðið hafa saknað Arons Pálmarssonar, sem kom ekkert við sögu stærstan hluta leiksins vegna meiðsla. „Það var náttúrulega gríðarlega mikil blóðtaka fyrir okkur, við reyndum að finna lausnir en því miður náðum við ekki að skora á þá.“

Strákarnir okkar fá stuttan hvíldartíma til að fara yfir þennan leik því þeir mæta franska landsliðinu annað kvöld á sama stað. Að sögn Guðmundar hefst undirbúningur undir þann leik strax í kvöld. 

Sjá einnig: Ólíklegt að Aron og Arnór verði með á morgun

„Við verðum bara að skoða núna stöðuna á leikmanna hópnum, hvort að Aron treysti sér til að spila á morgun eða ekki, það verður bara að koma í ljós.“