Leikmannasamtökin framkvæmdu um miðjan ágústmánuð könnun á meðal leikmanna í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu á Íslandi og spurðu þar um ýmis málefni tengd kórónaveirunni.

Þar kemur fram að rúmlega 60% þeirra 374 leikmanna sem svöruðu könnuninni óttast það að smitas af kórónaveirunni og tæplega 60% óttast að þurfa að fara í sóttkví eða einangrun.

Rúmlega 40% svarenda myndu kjósa að knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, myndi stöðva keppni vegna Covid19 og núverandi tímabili lyki. Reglugerð KSÍ um Covid19 tæki þá við um sætaröðun.

Þá kemur fram að um það bil 65% leikmanna hafa verið beðnir um að lækka laun sín á meðan kórónaveirufaraldurinn hefur staðið yfir og tæplega helmingur þeirra segir að um tímabundna launalækkun hafi verið að ræða.

Yfirgnæfandi meirihluti annar hvort taldi að launalækkunin hefði verið gerð í sátt við leikmannahópinn eða vissi ekki hvort svo hefði verið. Tæplega 45% sögðu sátt hafa ríkt um launalækkunina og rúmlega 45% vissu ekki hvernig staðið hefði verið að því og viðbrögðin voru í kjölfarið.

Lesa má um niðurstöður könnunarinnar í heild sinni hérna.