Besta saga fyrstu keppnis­helgar For­múlu 1 tíma­bilsins 2023 hverfist í kringum Spán­verjann reynda, tvö­falda heims­meistaranna Fernando Alon­so. Þessi öku­maður Aston Martin komst á verð­launa­pall á nýjan leik um síðustu helgi og það virðast allir halda með honum.

Alon­so er reyndasti öku­maður For­múlu 1 um þessar mundir. Þessi 41 árs gamli öku­maður hóf For­múlu 1 feril sinn árið 2001 og hefur nær sleitu­laust síðan þá verið á mála hjá liði í móta­röðinni.

Fyrir yfir­standandi tíma­bil skipti hann yfir til Aston Martin frá franska liðinu Alpine og hefur um leið náð að stimpla sig ræki­lega inn þar. Alon­so endaði í 3. sæti í Bar­ein kapp­akstrinum um síðustu helgi.

Eins og fyrr sagði virðast allir halda með Spán­verjanum reynslu­mikla, meira að segja keppi­nautar hans í móta­röðinni. Meira að segja ríkjandi heims­meistarinn Max Ver­stappen, öku­maður

Red Bull Ra­cing, sem vonast til þess að Alon­so komist aftur á sigur­braut á tíma­bilinu.

„Ég vona að hann geti það,“ sagði Ver­stappen um mögu­leika Alon­so á sigri á tíma­bilinu. „Hann hefur átt nokkur ár núna í móta­röðinni þar sem hann hefur ekki átt mögu­leika á sigri, það er því á­nægju­legt að sjá hann eiga mögu­leika á nýjan leik að berjast meðal fremstu öku­manna.“

Það búi mikið í bíl Aston Martin þessa dagana.

„Ég hugsa að það horfi líka bara til betri tíma hjá liðinu. Á þessu tíma­bili er þó erfitt að segja til um það hvort liðið verði í bar­áttu um heims­meistara­titilinn en þeir geta klár­lega barist um sigur í ein­staka keppnum.“