Besta saga fyrstu keppnishelgar Formúlu 1 tímabilsins 2023 hverfist í kringum Spánverjann reynda, tvöfalda heimsmeistaranna Fernando Alonso. Þessi ökumaður Aston Martin komst á verðlaunapall á nýjan leik um síðustu helgi og það virðast allir halda með honum.
Alonso er reyndasti ökumaður Formúlu 1 um þessar mundir. Þessi 41 árs gamli ökumaður hóf Formúlu 1 feril sinn árið 2001 og hefur nær sleitulaust síðan þá verið á mála hjá liði í mótaröðinni.
Fyrir yfirstandandi tímabil skipti hann yfir til Aston Martin frá franska liðinu Alpine og hefur um leið náð að stimpla sig rækilega inn þar. Alonso endaði í 3. sæti í Barein kappakstrinum um síðustu helgi.
Eins og fyrr sagði virðast allir halda með Spánverjanum reynslumikla, meira að segja keppinautar hans í mótaröðinni. Meira að segja ríkjandi heimsmeistarinn Max Verstappen, ökumaður
Red Bull Racing, sem vonast til þess að Alonso komist aftur á sigurbraut á tímabilinu.
„Ég vona að hann geti það,“ sagði Verstappen um möguleika Alonso á sigri á tímabilinu. „Hann hefur átt nokkur ár núna í mótaröðinni þar sem hann hefur ekki átt möguleika á sigri, það er því ánægjulegt að sjá hann eiga möguleika á nýjan leik að berjast meðal fremstu ökumanna.“
Það búi mikið í bíl Aston Martin þessa dagana.
„Ég hugsa að það horfi líka bara til betri tíma hjá liðinu. Á þessu tímabili er þó erfitt að segja til um það hvort liðið verði í baráttu um heimsmeistaratitilinn en þeir geta klárlega barist um sigur í einstaka keppnum.“