Stjórn Fim­leika­sam­bands Ís­lands segir að af­sögn formanns sam­bandsins í gær hafi haft lítið með meintan ölvunar­akstur eins af lands­liðs­þjálfurum sam­bandsins að gera.

Þetta kemur fram í yfir­lýsingu sem sam­bandið sendi frá sér í gær­kvöldi.

Vísir greindi frá því í gær­kvöldi að Kristinn Ara­son, fyrr­verandi for­maður Fim­leika­sam­bands Ís­lands, hefði sagt af sér á fundi stjórnarinnar í gær­kvöldi. Þetta hafi hann gert vegna á­kvörðunar stjórnar sam­bandsins um að gera nýjan samning við lands­liðs­þjálfara sem sagður var hafa keyrt undir á­hrifum á­fengis eftir gleð­skap í sumar.

Í yfir­lýsingu stjórnar Fim­leika­sam­bands Ís­lands kemur fram að á­greiningur um ráðningar­mál þjálfara hafi vissu­lega verið á­stæða af­sagnar formannsins. „En meintur ölvunar­akstur þjálfarans hafði mjög lítið með hana að gera, sam­kvæmt hans eigin orðum. Um er að ræða lang­varandi á­greining um val á lands­liðs­þjálfara.“

Þá segir stjórnin að hún harmi af­sögnina og þyki um leið miður að hún verði til þess að einka­mál­efni séu dregin fram í opin­bera um­fjöllun og grunur falli á nokkra ein­stak­linga sem starfa við þjálfun á vegum sam­bandsins.

„Stjórn FSÍ vill því leitast við að leið­rétta rangar stað­hæfingar sem fram hafa komið og upp­lýsa um hvernig í málinu liggur. Þannig var að Fim­leika­sam­bandinu barst tölvu­póstur í byrjun júlí­mánaðar s.l. þar sem fram kom á­sökun um meintan ölvunar­akstur eins af lands­liðs­þjálfurum FSÍ eftir af­mælis­fögnuð í mið­borg Reykja­víkur, þar sem við­komandi ein­stak­lingur var á meðal gesta. Norður­landa­mótinu í fim­leikum sem fram fór í Kópa­vogi í júlí hafði lokið fyrr um daginn og hafði þjálfarinn sótt loka­hóf þess fyrr sama kvöld. Hann var því ekki lengur að sinna störfum sem lands­liðs­þjálfari þegar hann sótti um­rætt af­mælis­sam­kvæmi síðar sama kvöld.“

Í yfir­lýsingu Fim­leika­sam­bandsins kemur fram að tölvu­pósturinn þar sem á­sökunin kom fram hafi verið á­fram­sendur til aga- og siða­nefndar sam­bandsins sem tók málið fyrir í kjöl­farið.

„Þjálfarinn neitar að hafa ekið undir á­hrifum. Fram­burði annarra vitna úr um­ræddu einka­sam­kvæmi bar ekki saman. Niður­staða aga- og siða­nefndarinnar var að málið skyldi niður falla. Ekkert liggur því fyrir um refsi­vert at­hæfi. Stjórn FSÍ harmar frétta­um­fjöllun um ölvunar­akstur þjálfara á vegum FSÍ án nokkurs fyrir­vara um hvað sé hæft í þeim stað­hæfingum.“