Knattspyrnumaðurinn í ensku úrvaldseildinni sem í gær var handtekinn, grunaður um að hafa nauðgað konu í síðasta mánuði hefur verið handtekinn að nýju. Hann er sakaður um tvö brot til viðbótar gegn mismunandi konum.

Maðurinn var í gær handtekinn á heimili sínu í Barnet í Norður-Lundúnum. Hann var fluttur í gæsluvarðhald, þar sem hann var handtekinn að nýju í dag.

Leikmaðurinn hefur ekki verið nafngreindur af lagalegum ástæðum, en hann er á þrítugsaldri og stórt nafn í boltanum. Fullyrt er að hann eigi að spila með landsliði sínu á HM í Katar síðar á þessu ári.

„Á meðan hann var í gæsluvarðhaldi var hann handtekinn vegna tveggja nauðganna sem eiga að hafa átt sér stað í apríl og júní á síðasta ári. Brotin eiga að hafa verið framin á konum á þrítugsaldri,“ segir í yfirlýsingu lögreglu.

Leikmanninum hefur verið sleppt gegn tryggingu þar til í ágúst til að byrja með. Rannsókn fer nú fram.