Bardagakappinn Nate Diaz stendur þessa dagana í stappi við UFC. Diaz á aðeins einn bardaga eftir af samningi sínum við bardagasambandið og vill fá hann í flýti en UFC virðist ætla draga lappirnar í málinu og freista þess að fá kappann til þess að skrifa undir nýjan samning. Nýjustu vendingar í málinu eru þær að Diaz sendi skilaboð á samfélagsmiðlum með því að birta mynd af sér míga fyrir utan eina af höfuðstöðvum UFC.

,,Að míga fyrir utan UFC. Ég get þetta því ég fæ meira borgað en þið allir og UFC vill ekki losa sig við mig," skrifaði Nate Diaz við mynd sem hann birti á samfélagsmiðlinum Twitter.

Diaz-bræðurnir Nate og Nick eru vel þekkt stærð innan UFC. Hápunktur Nate til þessa hljóta að teljast bardagar hans við Conor McGregor sem vöktu heimsathygli og vonast margir eftir því að þriðji bardaginn þeirra á milli verði settur á dagskrá en Nate vann fyrsta bardagann áður en Conor svaraði fyrir sig.

Í júní verður liðið ár síðan Nate steig síðast inn í bardagabúrið en þá barðist hann gegn Bretanum Leon Edwards.