Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins er tognaður á kálfa en vonast er til þess að tognunin sé ekki alvarleg. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir þetta fylgifisk ómanneskjulegra aðstæðna sem smitaðir leikmenn landsliðsins búa við í Ungverjalandi.

Ísland vann í dag tíu marka sigur á Svartfjallalandi í lokaleik milliriðla Evrópumótsins. Það var við hæfi að fyrirliðinn Aron Pálmarsson, sem var nýkominn úr einangrun, skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Þetta reyndust hins vegar einu mörk hans í leiknum þar sem hann fór meiddur af velli snemma í fyrri hálfleik.

,,Hann kenndi sér meins á kálfa og þetta er fylgifiskur þess að vera lokaður inni og mega ekki fara út," sagði Guðmundur í viðtali við RÚV eftir leik Íslands og Svartfjallalands en Aron hefur eytt síðustu dögum í einangrun vegna Covid-19.

,,Þetta eru náttúrulega bara ómanneskjulegar aðstæður hér því miður. Stundum gerast svona hlutir við vonum það besta, þetta er tognun í kálfa en við vonumst til þess að hún sé ekki alvarleg," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands eftir tíu marka sigur á Svartfjallalandi.

Íslenska landsliðið kláraði sitt og nú mun þjóðin bíða eftir niðurstöðum úr leik Danmerkur og Frakklands. Ísland fer í undanúrslit ef Danir vinna en mæta Noregi í leik um 5. sæti á mótinu og beint sæti á HM ef Frakkar fá stig eða tvö úr leiknum gegn Dönum.