Breiðablik þarf að spila heimaleik sinn við skoska liðið Aberdeen á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur uppfyllir ekki skilyrði UEFA. Völlurinn þarf að hafa flóðljós og betri aðstöðu til þess að teljast boðlegur fyrir þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, er ósáttur við þetta og í samtali við fotbolti.net sagði hann það „sorglegt“ að flytja þyrfti leikinn yfir í annað sveitarfélag.

Breiðablik sigraði Racing frá Lúxemborg í fyrstu umferðinni og Austria Vín frá Austurríki í annarri. Leikurinn á Laugardalsvelli verður á morgun, fimmtudaginn 5. ágúst, og viku síðar verður spilað í Skotlandi.