Marcus McGuane fékk eldskírn sína hjá Barcelona í gær í leik gegn Espanyol í katalónska Ofurbikarnum en með því varð hann fyrsti enski leikmaðurinn sem leikur fyrir félagið í tæp 40 ár.

McGuane sem er aðeins 19 ára gamall gekk til liðs við Börsunga frá Arsenal í janúar en hann var einn tólf leikmanna sem komu inn í leikmannahóp Barcelona í gær úr varaliðinu.

Varnarsinnaður miðjumaður að upplagi sem fékk fá tækifæri hjá Arsenal leiddi til þess að hann tók tilboði Barcelona þegar hann átti sex mánuði eftir af samningi sínum hjá Skyttunum.

Barcelona þurfti aðeins að greiða Arsenal uppeldisbætur fyrir McGuane sem skrifaði undir þriggja ára samning í Katalóníu með möguleika á tveggja ára framlengingu.

Kom hann inn sem varamaður fyrir Aleix Vidal á 77. mínútu í gær og lék síðasta korterið en með því varð hann fyrsti enski leikmaðurinn sem leikur fyrir Barcelona síðan Gary Lineker árið 1989.