Conor McGregor, fyrrum tvöfaldur meistari í UFC og fyrrum æfingafélagi Gunnars Nelson segir það geta farið svo að hann verði viðstaddur bardagakvöld UFC í London um helgina þar sem að Gunnar mun stíga inn í búrið á ný. Conor segir að það yrði gaman að geta verið á staðnum og séð Gunnar berjast.
Írski vélbyssukjafturinn var gestur í The MMA Hour í gær þar sem hann fór um víðan völl og snerti meðal annars á komandi bardagakvöldi UFC í Lundúnum þar sem Gunnar Nelson mætir meðal annars Bryan Barberena.
„Ég gæti verið á svæðinu á bardagakvöldinu sjálfu. Við erum með það á áætlun hjá okkur að koma upp útibúi fyrirtækisins míns, The Black Forge, fyrir í London. Þá er Gunnar að berjast á þessu og bardagakvöldi og það væri gaman að geta verið á staðnum og séð hann berjast.“
Conor McGregor would like a title shot with a win against Michael Chandler 🏆 #TheMMAHour
— MMAFighting.com (@MMAFighting) March 16, 2023
▶️ https://t.co/R4rcd95EP0 pic.twitter.com/YkFQa5UDAk
Annars er Conor einnig með augastað á aðalbardaga kvöldsins sem er titilbardagi veltivigtardeildarinnar, sömu deildar og Gunnar berst í, milli Leon Edwards og Kamaru Usman.
Conor er vanur að keppa nokkrum þyngdarflokkum neðar en undanfarið hefur hann verið að bæta á sig og gæti því horft hýru auga á titilbardaga í veltivigtardeildinni við sigurvegara helgarinnar.
Fyrst þarf hann hins vegar að mæta Michael Chandler í búrinu.
„Ef þú vinnur þann bardaga, færðu þá titilbardaga?“ spurði Ariel Helwani, umsjónarmaður The MMA Hour.
„Já, ég væri til í það.“
„Myndirðu þá vilja fá bardaga við sigurvegarann í bardaga Edwards og Usman?“ bætti Helwani þá við.
„Það væri gaman að sjá hvar þessi veltivigtartitill endar.“