Conor McGregor segir að hann snúi aftur í UFC búrið í janúar næstkomandi og stefnir á að ná þremur bardögum á næsta ári.

Írski vélbyssukjafturinn hefur ekkert barist í rúmt ár síðan hann tapaði léttvigtarbeltinu til Khabib Nurmagomedov. Það er eini bardagi Conors í tæp þrjú ár en hann tilkynnti fyrr á þessu ári að hann væri hættur í UFC.

Samkvæmt Conor er búið að negla dagsetningu, þann 18. janúar næstkomandi en það á eftir að finna andstæðing fyrir Conor. Þá óskaði hann eftir bardaga gegn Khabib eða Tony Ferguson í Moskvu síðar á árinu.

Conor hefur verið í vandræðum í einkalífinu og verið ásakaður tvívegis um kynferðisbrot í Dublin. Þá þurfti hann að svara fyrir að hafa ráðist á eldri mann á knæpu í Dublin eftir að hann neitaði að smakka viskí sem Conor framleiðir.