Conor McGregor, bardagakappi og helsta andlit UFC bardagasambandsins, var á dögunum handtekinn í Dublin á Írlandi sökum háskafulls aksturs á götum borgarinnar. Þetta hefur talsmaður lögreglunnar í Dublin staðfest.

Conor var stoppaður á Bentley Continental GT bifreið sinni, handtekinn en að lokum sleppt gegn tryggingu. Í kjölfar háska akstursins var bifreið hans gerð upptæk en hún hefur nú skilað sér aftur til hans.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Conor er stöðvaður af lögreglunni fyrir háskafullan akstur en slíkt hið sama gerðist árið 2017. Búist er við því að hann muni þurfa að mæta fyrir dómara í apríl til þess að svara fyrir sakir sínar.

,,Gardai lögreglan handtók mann á fertugsaldri í tengslum við háskafullan akstur hans á Palmerstown svæðinu í gærkvöldi," segir meðal annars í svari lögreglunnar.

Conor er núna að vinna í því að ná fyrri styrk eftir að hafa tapað bardaga gegn Dustin Poirier í júlí á síðasta ári. Bardaginn var stöðvaður af lækni sökum þess að Conor fótbrotnaði í bardaganum.