Conor McGregor baðst afsökunar á því að hafa kýlt eldri mann á knæpu í Dublin eftir að maðurinn sem er á sextugsaldri neitaði að drekka viskíið hans Conor.

Fjölmiðlar vestanhafs birtu myndband af því þegar Conor var að ræða við manninn og endar á að kýla hann.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni var hinn rólegasti og lét eins og ekkert hefði í skorist á meðan Conor var hent út af barnum.

Conor var spurður út í atvikið í viðtali á ESPN og virtist hann iðrast gjörða sinna.

„Í raun og veru skiptir það ekki máli hvað fór fram, ég brást ókvæða við þrátt fyrir að þessi maður hafi átt skilið að njóta sín án þess að ég myndi missa stjórn á mér,“ sagði Conor sem sagðist hafa útkljáð málið.

„Það eru fimm mánuðir liðnir síðan þetta gerðist og ég var strax í sambandi við manninn til að útkljá þetta mál en það skipti ekki máli. Mér brást bogalistin og ég verð að axla ábyrgð, bæði gagnvart fjölskyldu minni, vinum og þeim sem hafa unnið með mér.“