Enska knattspyrnufélagið Sheffield United sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir að David McGoldrick, framherji karlaliðs félagsins, hafi fengið send rasísk skilaboð í aðdraganda siguleiks liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Um helgina var greint frá því að 12 ára drengur hafi verið handtekinn fyrir að senda Wilfried Zaha, framherja Crystal Palace skilaboð með rasískum skilaboðum fyrir tapleik liðsins gegn Aston Villa.

Zaha tjáði sig um málið við enska fjölmiðla í morgun þar sem hann þakkar lögreglunni fyrir skjót og fagmannleg vinnubrögð sín í málinu. Þá segir þessi 27 ára gamli leikmaður sem kmeur frá Fílabeinströndinni að þörf sé á aðgerðum, fræðslu og raunverulegum breytingum gegn kynþáttafordómum.

„Fólk þarf að átta sig á því að það er alveg sama hversu gamall gerandinn er svona háttsemi getur haft alvarlegar afleiðingar. Það er mikilvægt að samfélagsmiðlar séu vakandi fyrir því að svona efni sé birt þar og bregðist við með því að fjarlægja það eins fljótt og auðið er eins og gert var um helgina," segir Zaha.

Hann segir svona skilaboð ekki vera einsdæmi og þeldökkir fótboltamenn verði fyrir kynþáttafordómum nánast daglega. Þessu verði að breyta og samfélagið þurfi að taka höndum saman og útrýma þessu samfélagsmeini undir eins. Zaha segir ekki nóg að fyllast viðbjóði yfir skilaboðunum, þeim tilfinningum verði að fylgja raunverulegar aðgerðir.

Leikmenn og þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni hafa í undanförnum leikum sýnt byltingunni Black Lives Matter stuðning með því að krjúpa á kné fyrir leiki liðanna í deildinni.