Steve McClaren sem var aðstoðarmaður Sir Alex Ferguson fyrir tuttugu árum síðan verður hluti af þjálfarateymi Erik ten Hag en viðræður við fyrrum þjálfara enska landsliðsins eru langt á veg komnar.

McClaren og ten Hag unnu saman þegar sá fyrrnefndi stýrði liði Twente og segja breskir fjölmiðlar að ten Hag sé ákveðinn í að fá McClaren með sér til Englands þar sem hann þekki félagið vel.

Hinn 61 ára gamli McClaren varð óvænt aðstoðarþjálfari Ferguson árið 1999 þegar Brian Kidd lét af störfum og var afar eftirsóttur þegar hann hóf þjálfaraferil tveimur árum síðar eftir að hafa heillað fólk innan herbúða United.

McClaren hefur komið víða við á þjálfaraferlinum og þjálfað Middlesbrough, enska landsliðið, Twente í tvígang, Wolfsburg, Nottingham Forest, Derby, Newcastle og síðast QPR.