Kylian Mbappe, framherji PSG og franska landsliðsins, segist áhugasamur um að leika fyrir hönd Frakklands á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020.

Keppt er í knattspyrnu á Ólympíuleikunum þar sem þjóðir senda til leiks lið skipuð leikmönnum undir 23 ára aldri ásamt tveimur eldri leikmönnum.

Mbappé sem er aðeins nítján ára gamall kemur því til greina í franska landsliðið fyrir Ólympíuleikana og segist hann vera afar áhugasamur um það.

Liðsfélagar hans hjá PSG, Neymar og Marquinihos, voru hluti af brasilíska hópnum sem vann gull á Ólympíuleikunum 2016.

„Ég vill vinna alla þá titla sem í boði eru. Með landsliðinu þá vill ég vinna Evrópumótið og Ólympíuleikana og með PSG vonast ég til að vinna Meistaradeild Evrópu.“