Kylian Mbappe, leikmaður PSG og franska landsliðsins, fékk tíu atkvæði í bæjarfélaginu Tallenay í annarri umferð forsetakosninganna í Frakklandi um helgina.

Franskir fjölmiðlar greina frá því að einstaklingarnir hafi prentað út kjörseðla þar sem Mbappe var bætt við frambjóðendalistann en atkvæðin voru dæmd ógild.

Mbappe naut því ágætis fylgis í bæjarfélaginu þar sem hann fékk tíu af 348 atkvæðum í Tallenay.

Franski sóknarmaðurinn er gjaldgengur í forsetastólinn þar sem einstaklingar verða að vera orðnir átján ára gamlir til að bjóða sig fram.

Emmanuel Macron hafði betur gegn Marine Le Pen í annarri umferð forsetakosninganna og fékk Macron tæplega 18,8 milljónir atkvæða.