Kylian Mbappe liggur undir feldi þessa dagana með tilboð frá PSG og Real Madrid en franska félagið er búið að gera honum tilboð sem myndi gera hann að langlaunahæsta leikmanni heims.

Nánustu aðstandendur Mbappe eiga von á því að hann tilkynni á sunnudaginn hvar hann ætli sér að skrifa undir samning.

Flestir áttu von á því að franski sóknarmaðurinn myndi semja við Real Madrid og myndi ganga til liðs við félagið í sumar þegar samningur hans rennur út í Parísarborg. Hann hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að spila einn daginn fyrir Real Madrid og var búinn að gera munnlegt samkomulag við Madrídinga

Veglegt tilboð PSG sem myndi gera hann að langlaunahæsta leikmanni heims virðist hafa fengið hann til að endurhugsa ákvörðun sína en spænskir fjölmiðlar fullyrða að hann fái þrjú hundruð milljónir evra við undirskrift og hundrað milljónir evra á ári.

Það er hærri upphæð en Messi fékk greidda hjá Barcelona sem fór langt með að keyra félagið í gjaldþrot.